Græn stjórnmál á Íslandi?

ERU græn stjórnmál orðin að veruleika á Íslandi? Sú spurning verður æ áleitnari eftir því sem nær dregur alþingiskosningum. Nærtækt er að líta til útkomu sveitarstjórnarkosninganna á sl. ári og þess fylgistaps sem Framsóknarflokkurinn varð þar fyrir. Margir skýrendur röktu tapið til umhverfismála; að verið væri að refsa flokknum fyrir framgöngu hans í Kárahnjúkamálinu. Ef þessi túlkun er rétt, þá höfðu "grænu atkvæðin" – þ.e. atkvæði sem kjósendur ráðstafa fyrst og fremst á grundvelli sannfæringar sinnar í umhverfismálum – þar með í fyrsta skipti veruleg áhrif á úrslit kosninga á Íslandi. Þessi útkoma hlýtur jafnframt að vekja spurningar um framhald mála; mun sá tónn sem þar var sleginn enduróma nú í vor? Er landslag íslenskra stjórnmála að breytast til frambúðar?

Hvað eru græn stjórnmál?

Græn stjórnmál má skilgreina á margvíslega vegu, rétt eins og hugsjónir umhverfisverndarsinna, samtök þeirra eða flokka. Umhverfispólitík er ekki bundin við stjórnmálaflokka, hún getur allt eins birst í starfi grasrótarhreyfinga eða í lífsvenjum einstaklinga. Einnig má segja að allt það sem ríki, sveitarfélög, stofnanir og skólar aðhafast (eða aðhafast ekki) í þágu umhverfisverndar sé einnig til marks um umhverfispólitík – jákvæða eða neikvæða, eftir atvikum.

Þegar spurt er hvort græn stjórnmál séu orðin að veruleika á Íslandi er svarið því: "Já, vitaskuld!", a.m.k. í víðasta skilningi. Jafnframt er þó ljóst að lykillinn að framförum í umhverfisvernd er að stærstum hluta fólginn í því að umhverfismálunum verði raðað mun ofar á forgangslista ráðamanna en verið hefur.

Framan af einkenndist umhverfispólitík á Íslandi af hugsjónastarfi umhverfisverndarsamtaka sem yfirleitt voru fámenn og nutu takmarkaðs skilnings á baráttumálum sínum, hvort heldur hjá almenningi eða stjórnvöldum. Þeir tímar hafa breyst. Vinsældir Draumalandsins, hugmyndir um nýtt grænt framboð, tilurð nýrra þverpólitískra grasrótarhreyfinga og auknar efasemdir um stóriðjustefnuna hjá hægrimönnum – allt eru þetta vísbendingar um mikla gerjun í íslenskum stjórnmálum. Þessir þræðir koma allir saman í einni lykilspurningu: Verður kosið um stóriðjustefnuna í vor?

Er rautt-blátt enn aðalmálið?

Tengsl umhverfisverndarhyggju við hefðbundin vinstri-hægri skil í stjórnmálum hafa mikið verið til umræðu að undanförnu. Slíkar umræður eru nýlunda hér á landi og snúast í megindráttum um tvennt: hvort/hvernig umhverfisvernd geti samrýmst hægristefnu og hvort skipti meira máli í samtímanum; aukin umhverfisvernd eða hefðbundin ágreiningsefni hægri- og vinstrimanna? Mergurinn málsins er hvort myndast hafi varanleg skil á milli þeirra sem velja umhverfisvernd fram yfir stóriðju og hinna sem taka andstæðan pól í hæðina? Þar með væri kominn nýr "grænn-grár" ás til hliðar við eða þvert á hinn gamalgróna "rauða-bláa" ás í íslenskum stjórnmálum.

Margt bendir til að slíkur grænn-grár ás sé að verða að veruleika á Íslandi. Líklegt er að fleiri þættir en umhverfisvernd spili þar inn í, t.a.m. aukin "miðjusækni" hægri- og vinstriflokka. Hjá mörgum grænum kjósendum snýst málið ekki aðeins um umhverfisvernd heldur líka um öðruvísi og betri pólitík.

Verður stóriðjustefnan kosningamál?

Vandi grænna kjósenda í dag snýst um að finna þann lýðræðislega farveg sem mun skila mestum árangri fyrir umhverfisvernd í landinu. Ljóst er að mikið verður í húfi á næsta kjörtímabili því þá verða teknar endanlegar ákvarðanir um stóriðjuáform sem munu breyta ásýnd landsins um alla framtíð – ef þau ná fram. Ýmsar leiðir standa til boða, þ.m.t. stuðningur við stjórnmálamenn eða -flokka sem hafa beitt sér gegn stóriðju, tilraunir til umbóta innan þeirra flokka sem "gráastir" hafa verið, stofnun sérstaks framboðs gegn frekari stóriðju, baráttu- og málefnastarf innan grænna grasrótarsamtaka og almenn pólitísk virkni einstaklinga, t.d. í gegnum blaðaskrif eða þrýsting á valdhafa.

Andstaða við stóriðjustefnuna er auðvitað ekki eina umhverfismálið sem grænir kjósendur gætu sett á oddinn, en er þó að öllum líkindum það málefni sem flestir þeirra – óháð hugsjónum eða aðild að samtökum eða flokkum – gætu náð samstöðu um. Áframhaldandi uppbygging stóriðju er jafnframt eitt þeirra mála sem brennur hvað heitast á Íslendingum nú um stundir. Um stóriðjustefnuna eru vissulega skiptar skoðanir en undir slíkum kringumstæðum hlýtur það einmitt að vera einföld sanngirniskrafa að landsmenn, hvaða skoðun sem þeir kunna að hafa á málinu, fái tækifæri til þess að kjósa um það með skýrum og ótvíræðum hætti í næstu alþingiskosningum.

Málið snýst ekki aðeins um leiðir til að koma á sátt á milli manns og náttúru heldur einnig – og ekki síður – um leiðir til að bæta fyrir þann klofning og þau sár sem umdeildar stóriðjuframkvæmdir eins og Kárahnjúkavirkjun hafa skilið eftir hjá íslensku þjóðinni. Það mál varðar ekki síður stjórnmálamenn en kjósendur; nú reynir á hvort þeir búi yfir þeim myndugleika sem þarf til að leggja verk sín og áform í umhverfis- eða stóriðjumálum í dóm kjósenda með ótvíræðum hætti.

Höfundur er doktor í umhverfisfræðum.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband